Starfsskýrslur

Starfsskýrsla 2015

Aðalfundur var haldinn 1. mars þar sem reikningar vegna 2012 – 2013 og 2014 voru teknir til afgreiðslu. Lítilsháttar lagabreytingar voru gerðar á fundinum. Sigurður Hjálmarsson hætti sem formaður og Guðjón Þ. Guðmundsson tók við því embætti. Sigurður er áfram í stjórn sem meðstjórnandi.
Farið var í flestar þær gönguferðir sem áætlaðar voru á árinu og tekið var á móti göngufólki eina helgi frá Ferðafélagi A – Skaft.
Endurbyggingu skálans (Deildarárskóla) í Höfðabrekkuafrétti miðaði aðeins á árinu. Lokið var við að panelklæða húsið að innan. Gengið var frá rotþró og lögnum að og frá henni. Vatnslögn var grafin niður en eftir er að ganga frá henni í báða enda. Keyptar voru flísar á húsið en ekki tókst að leggja þær svo það verkefni bíður næsta árs.
Unnið var við stikun gönguleiða í Höfðabrekkuafrétti í samvinnu við Kötlusetur í Vík.

Ferðaáætlun fyrir árið 2016 hefur verið ákveðin af ferðanefnd, hefur hún verið send FÍ og sett inn á heimasíðu deildarinnar http://www.myrdalur.com
Guðjón Þ. Guðmundsson form.

2014

Aðalfundur var ekki haldinn á árinu.
Endurbyggingu Deildarárskóla í Höfðabrekkuafrétti miðaði nokkuð vel þetta árið en þar ber að þakka Ferðafélagi Austur Skaftafellssýslu sem gaf okkur kr. 250.000.-  til kaupa á efni í húsið. Ferðafélag  A- Skaft lét ekki þar við sitja, það komu 4 félagar að austan og unnu með félögum F M eina helgi í lok júní við að klæða húsið að innan með panil. Áður höfðu nokkrir félagar F M unnið afrek við að koma allri steinull í veggi og loft. Það sem eftir er að klæða innan húss er austur gafl þess en það stendur til að klæða hann að hluta með panil sem tókst að bjarga úr eldra húsinu. Hús fyrir salernisaðstöðu miðaði ekkert á árinu. Kvöldgöngur sem félagið stóð fyrir  gengu vel og voru nokkuð vel sóttar. Formaður F M tók á móti einum hóp í sumar sem fóru í gönguferðir eina helgi í Höfðabrekkuafrétt og Sólheimaheiði. Félagið tók að sér stikun á nokkrum gönguleiðum í Höfðabrekkuafrétti í Mýrdal í samstarfi með Kötlusetri sem lagði til 4 sjálfboðaliða frá Kötlujarðvangi. Þátttaka félaga í F M var lítil og tókst því ekki að ljúka verkinu svo það bíður vordaga 2015 að klára það. Ferðaáætlun fyrir árið 2015 hefur verið ákveðin af ferðanefnd, hefur hún verið send FÍ og sett inn á heimasíðu deildarinnar  www.myrdalur.com  og á Facebook.

Sigurður Hjálmarsson form.

2013

Aðalfundur var ekki haldinn á árinu. Farið var í 4 af 6 göngum sem skipulagðar voru fyrir starfsárið. Ástæðan fyrir því að tvær féllu niður var lítil þátttaka og leiðinlegt veður.
Endurbyggingu skálans (Deildarárskóla) í Höfðabrekkuafrétti miðaði ekkert á árinu þar sem engir peningar fengust til að halda byggingunni áfram þrátt fyrir að sótt hafi verið í sjóði. Húsið er nú fullbúið að utan og inni er búið að setja einangrun í veggi að hluta . Tekin hefur verið saman efnis og kostnaðaráætlun fyrir það sem eftir er.
Hús fyrir salernisaðstöðu er löngu komið á staðinn en hefur ekki verið tekið í notkun. Vatnslagnir , rotþró og frárennsli er enn ófrágengið en nokkuð er til af efni í það sem deildinni hefur verið gefið. Deildin á til peninga til ljúka frágangi hreinlætisaðstöðunnar .
Ferðaáætlun fyrir árið 2014 hefur verið ákveðin af ferðanefnd, hefur hún verið send FÍ og sett inn á heimasíðu deildarinnar  www.myrdalur.com

Sigurður Hjálmarsson form.

2012

Aðalfundur var haldinn 21. janúar 2012 fyrir tvö síðustu ár. 1 stjórnarfundur var haldinn
vegna erindis frá nokkrum bændum í Mýrdal en mál annars afgreidd með símtölum
og tölvupóstsendingum. Góð þátttaka var í allar göngur deildarinnar sem settar voru á
ferðaáætlun 2012. Besta þátttakan var í kvöldgöngu á Hjörleifshöfða þar sem
landeigandinn. Þórir Kjartansson var með leiðsögn og boðið var upp á soðin fýlsegg eftir gönguna. Það nýjasta hjá deildinni var að boðið var upp á nokkrar vetrarferðir sem heppnuðust allar mjög vel. Fréttabréf var gefið út og ný heimasíða var tekin í notkun fyrri hluta árs. Endurbyggingu Deildarárskóla í Höfðabrekkuafrétti miðaði hægt á árinu. Skortur er á fjármagni svo hægt sé að halda byggingunni áfram. Húsið er nú fullbúið að utan og inni er búið að setja einangrun í veggi að hluta . Ákveðið er að gera sem fyrst nokkuð nákvæma kostnaðaráætlun fyrir það sem eftir er til að fullgera húsið. Þrír fulltrúar deildarinnar mættu á deildafund Ferðafélags Íslands sem haldinn var í Þórsmörk í lok september. Ferðaáætlun fyrir árið 2013 hefur verið ákveðin af ferðanefnd, hefur hún verið send FÍ og sett inn á heimasíðu deildarinnar http://www.myrdalur.com.

Sigurður Hjálmarsson form.

2011

Aðalfundur var ekki haldinn á árinu en stefnt er á að halda hann í janúar 2012. Stjórnarfundir voru engir en mál afgreidd með símtölum og tölvupóstsendingum.
Farið var í þrjár kvöldgöngur sem voru ágætlega sóttar en ein kvöldganga og dagsferð í Huldufjöll féllu niður vegna lítillar þátttöku.

Endurbyggingu Deildarárskóla í Höfðabrekkuafrétti miðaði nokkuð hægt þetta ár. Settir voru í hann gluggar og útihurð. Gluggarnir voru smíðaðir síðastliðinn vetur af Karli Ragnarssyni í Vík en hurðina fékk deildin árið áður að gjöf. Skortur er á peningum svo hægt sé að halda byggingunni áfram. Húsið er nú að mestu fullbúið að utan, aðeins eftir að ganga frá nokkrum áfellum með gluggum.

Ferðaáætlun fyrir árið 2012 hefur verið ákveðin af ferðanefnd, hefur hún verið send FÍ og sett inn á heimasíðu deildarinnar.

Sigurður Hjálmarsson form.

2010

Vegna eldgossins í Eyjafjallajökli varð starf félagsins allt minna í sniðum en til stóð. Aðalfundur var haldinn í Leikskálum í Vík 8. júní. 10 félagar mættu á fundinn, enginn fulltrúi mætti frá Ferðafélagi Íslands. Stjórnarfundir voru engir á árinu, þess í stað ræddu stjórnarmenn saman og tóku ákvarðanir með tölvupóstsendingum.

Auglýstar gönguferðir féllu allar niður vegna lítillar þátttöku og öskufoks.

Blásið var til áheitagöngu til fjáröflunar þann 18. júlí, 22 mættu í gönguna og söfnuðust kr. 242.700.- auk eins glugga í Deildarárskóla sem Félagsbúið  Þórisholt í Mýrdal gaf.

Bygging Deildarárskóla gekk frekar hægt á árinu, þó var unnið aðeins við frágang á áfellum og smíðaður var karmur á útihurð sem félaginu áskotnaðist. Einn stjórnarmanna félagsins útvegaði notaða steinull í allt húsið sem kostaði aðeins kr. 45.000.-. Steinullin hefur öll verið flutt á staðinn en aðeins hluti hennar er kominn í loft og veggi.

Ferðaáætlun fyrir árið 2011 var ákveðin af ferðanefnd í nóvember.

Sigurður Hjálmarsson form.


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s